UPPLÝSINGAR FYRIR ALMENNING


Hvað er sálmeðferð?

Sálmeðferð er alhliða, meðvituð og skipulögð meðferð sálfélagslegs, sálvefræns, tilfinninga, samskipta og/eða hegðunar vanda, með vísindalegum sálrænum aðferðum. Sálmeðferð er húmanístísk nálgun sem lítur á einstaklinginn sem heild og leggur áherslu á hugtök eins og frjálsan vilja, trú á eigin getu og þroska sjálfsins (self-actualization). Hún leitast við að hjálpa fólki að nýta getu sína og ná sem bestri líðan. Gegnum samspil milli eins eða fleiri einstaklinga og eins eða fleiri sálmeðferðarfræðinga, er unnið að því að hjálpa einstaklingnum að ná persónulegum markmiðum. Sálmeðferð krefst bæði almennrar og sérhæfðrar menntunar/þjálfunar og nýtir aðferðir sem byggja á gagnreyndum kenningagrunni og staðfestri klínískri reynslu.

Hvað er sálmeðferðarfræðingur?

Sálmeðferðarfræðingur er fagaðili á geðheilsusviði, menntaður til að meðhöndla einstaklinga með sálrænan, tilfinningalegan og sálfélagslegan vanda. Mismunandi er eftir sérhæfingu hvort þeir starfa með einstaklingum, pörum, hópum eða fjölskyldum.

Samkvæmt Evrópusamtökum sálmeðferðarfræðinga „European Association for Psychotherapists (EAP)“ er sálmeðferðarfræði skilgreind sem sértækt fag sem er aðgreint frá sálfræði, geðlæknisfræði og ráðgjöf. Sálmeðferðarfræði er venjulega fjögurra ára framhaldsnám á masters stigi. Skipulag námsins er mismunandi milli landa. Í öllum tilvikum eru gerðar kröfur um faglega, sértæka, kenningamiðaða og klíniska þjálfun, sem felur í sér þekkingu á rannsóknum, aðferðarfræði og gerir kröfur um símenntun. Möguleikarnir í klíniskri sérhæfingu innan sálmeðferðarfræði er víðtæk og stöðug þróun á sér stað innan stéttarinnar í fagþekkingu og klíniskri nálgun.

Hvers er að vænta í meðferðinni?

Í byrjun meðferðar vinnur sálmeðferðarfræðingurinn með þér í að byggja upp meðferðarsamband. Markmið fyrstu tíma er að skilgreina og kortleggja vanda og byggja upp traust og öryggi. Lykilþáttur árangursríkrar meðferðar er að líða vel með meðferðaraðilanum þínum og það getur komið með tíma. Ef þér finnst eftir nokkra tíma að þið séuð ekki að ná saman þá hefur þú alltaf val um að finna annan aðila til að vinna með. Ef vandinn er að valda miklum truflunum í lífi þínu er heppilegt að hittast vikulega eða hálfsmánaðarlega. Venjulegur meðferðartími er 50 mín. Ef hentar getur meðferðaraðilinn látið þig fá heimavinnu til að skoða fyrir næsta tíma.


Dæmi um meðferðarnálganir

Ef um neyðartilvik er að ræða og þörf á aðstoð strax, hringið í Neyðarlínuna 112, hjálparsíma Rauða Krossins - 1717 eða hafið samband við bráðamóttöku geðdeildar Landspítala, s. 543-1000


Framtíðarsýn


Félag sálmeðferðarfræðinga styður við faglegt starf og þróun hjá sálmeðferðarfræðingum með áherslu á endurmenntun, samstarf og kynningarefni.

Markmið okkar er að koma vitneskju um eðli og gagnsemi meðferðarinnar til sem flestra og auka þannig möguleika þeirra sem meðferðin gagnast fyrir til að njóta hennar.

Í samræmi við stefnuyfirlýsingu Evrópusamtaka sálmeðferðarfræðinga (European Association for Psychotherapists Act) vinnur félagið að því að byggja upp, styðja við og tryggja gæði sjálfstæðrar fagstéttar sálmeðferðarfræðinga. Stefnuyfirlýsingin nær yfir allar hliðar starfs sálmeðferðarfræðinga við að beita sambandsmiðuðum sálrænum aðferðum sem byggðar eru á vísindalegum grunni (evidence informed) til að meðhöndla sálrænan, sálfélagslegan og sálvefrænan vanda. Siðareglur Félags sálmeðferðarfræðinga byggja á alþjóðlegum siðareglum fagsins sem virða reisn, sjálfstæði og sérstöðu sérhvers einstaklings.